09.10.2017

Fagleg víngerð í fallegu umhverfi Ítalíu

Síðastliðinn september var ostahátíðin Cheese haldin í borginni Bra á Ítalíu. Hátíðin er haldin á vegum Slowfood samtakanna og var þetta í tuttugasta skipti sem hún er haldin. 

Ég flaug yfir Alpana til Piedmont til að heimsækja hátíðina en þetta var um leið matar- og menningarferð fyrir fjölskylduna. Ég heimsótti nokkra vínbændur í héraðinu í leiðinni. Einn af þeim er hann Enrico Rivetto en hann ræktar þrúgur í hlíðum Serralunga á Barolo svæðinu. Mörg af stórkostlegustu vínum Ítalíu koma frá þessum slóðum og það var magnað að ganga um vínekrurnar, sérstaklega á þessum árstíma. Uppskeran var hafin víða og nóg um að vera hjá vínbændum héraðsins. Enrico er mikill gestgjafi og fann stund milli stríða til að sýna okkur vínrækt sína. 

 

Fjórar kynslóðir Rivetto fjölskyldunnar hafa rekið víngerð á svæðinu og ræktar hann Nebbiolo og Barbera
þrúgur og einnig hina hvítu og sjaldgæfu Nascetta þrúgu. 

Enrico er þróttmikill og hugmyndaríkur víngerðarmaður með ákveðna sýn þegar kemur að ræktun.
Síðan árið 2013 hefur hann sneitt fram hjá öllum tilbúnum áburði og er búinn að taka upp lífrænar ræktunaðferðir
með lífefldum áherslum. Ýmiss konar trjátegundum, plöntum og jurtum - öðrum en vínvið - hefur hann plantað á
landið sitt til að auka líffræðilegan fjölbreytileika og notar einungis lífrænan áburð og moltu til að græða jarðveginn
sinn. Metnaðurinn er mikill og samspil hollrar ræktunar, faglegrar víngerðar og ótrúlegra náttúrulegra skilyrða skilar
sér í einstökum gæðum vínsins.

 

Um þessar mundir erum við á Grillinu að para Langhe Nebbiolo vínið hans við frábæran nautaforrétt með
kantarellusveppum. Samsetningin er einstök og forréttindi að geta boðið upp á jafnvönduð vín með matnum okkar.

Myndefni: Fulvio Silvestri, www.fulviosilvestri.com

                                                                                                          -Axel Aage, Yfirþjónn á Grillinu