30.08.2016

Algjörlega heimsóknarinnar virði

Í síðasta mánuði komu tveir þekktir matarrýnar til okkar á Grillið, þær Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir, nýorðin ritstjóri Gestgjafans og Guðný Þórarinsdóttir, blaðamaður á Birtíngi.  Þær áttu dásamlega kvöldstund með okkur og birtist upplifun þeirra í grein í Gestgjafanum.

Við fengum góðfúslegt leyfi frá þeim til að birta glefsur úr greininni og þetta höfðu þær meðal annars um Grillið að segja: „Staðsetning Grillsins er einstök en eins og flestir vita er það að finna á áttundu hæð Radisson Blu Hótel Sögu og útsýnið eftir því, stórfenglegt“. Þær stöllur tala mikið og vel um starfsfólkið okkar „þjónustan var verulega góð og fagleg. Augljóst var að starfsfólkið kunni sitt fag og hlutverk vel, hvílíkur munur að fá loksins fyrsta flokks þjónustu á Íslandi. Sérlega skemmtilegt var hversu fróðir þjónarnir voru hvort sem um var að ræða matinn, vínin eða bara kaffið“. Þær fóru líka fögrum orðum um Gísla Jensson sem er vínsérfræðingur (Sommelier) staðarins og sér um að para vín með öllum réttum á matseðlinum af sinni einstöku kunnáttu og telja þær hann einn helsta sérfræðing landsins í þeim efnum.  Atli Erlendsson stýrir eldhúsinu ásamt sínu fólki sem mörg hver hafa unnið verðlaun fyrir framúrskarandi árangur í matreiðslu. Þeim þótti sérstaklega skemmtilegt að  fá matreiðslumennina fram í salinn til að útskýra réttina hverju sinni og setja lokapunktinn á diskana á borðinu. Báðar eru þær sammála um að Grillið sé án efa einn allra besti veitingastaður landsins sem skarti flottum verðlaunakokkum. Matseðillinn er einfaldur og skammtarnir mjög passlegir.  Vínpörunin gerði upplifunina virkilega skemmtilega og þrátt fyrir að Grillið sé í flokki fjögurra hnífapara (“fínn” staður), þá sé andrúmsloftið mjög afslappað.

Að lokum nefnir Hanna að kvöldstund á Grillinu sé „matarupplifun, ævintýri fyrir bragðlaukana og að maturinn sé á heimsmælikvarða“.  Báðar gefa þær Hanna og Guðný okkur frábærar einkunnir en Hanna gefur 9/10 og Guðný 9,5/10.

Við þökkum þeim Hönnu og Guðnýju kærlega fyrir komuna og falleg orð í okkar garð og vonumst til að sjá þær aftur í náinni framtíð.

Bestu kveðjur

Starfsfólk Grillsins

Hægt er að fylgjast með gestgjafanum á Instagram og Facebook!