12.01.2017

16 GRILLIÐ

Segja má að árið 2016 hafi sko aldeilis verið gott ár fyrir okkur hér á Grillinu.

Árið byrjaði á því að hann Atli okkar tók þátt í Gala Dinner KM og var þar með sinn eigin rétt, verandi Matreiðslumaður Ársins 2015. Sögur segja að hann hafi verið áberandi flottur.
Í febrúar keppti Denis okkar í Kokkur Ársins – segja má að það hafi einnig farið einstaklega vel því Denni labbaði út sem sigurvegari. Eftir keppnina lá leið Denna beint til Danmerkur þar sem hann keppti um Norðurlandatitilinn í matreiðslu í mars.
Í maí var svo undankeppni Bocuse d‘Or haldin í Búdapest þar sem Viktor Örn keppti fyrir Íslands hönd. Aðstoðarmaður hans er enginn annar en Hinrik Örn, en hann er einmitt einn af okkar allra flottustu. Síðan er Siggi Helga auðvitað þjálfari þessa grífurlega flotta teymis.
Strákunum gekk hrikalega vel í Búdapest, höfnuðu í 5. sæti og fengu sérstök verðlaun fyrir fiskréttinn sinn.
Vegna þess hve vel þeir stóðu sig í Búdapest fengu þeir keppnisrétt á aðalkeppni Bocuse d‘Or sem haldin er í Lyon núna í lok janúar.

Hann Atli okkar tók síðan þátt í Ólympíuleikunum í matreiðslu með Kokkalandsliðinu sem fóru fram í Þýskalandi í október síðastliðinn. Þau stóðu sig öll eins og hetjurnar sem þau eru.

Í blálokin á október kom White Guide Nordic út og við hér á Grillinu fengum þann heiður að hafna á þeim lista – og það sem annar besti veitingastaður Íslands, og hástökkvari ársins, stukkum úr níunda sæti árið á undan beint í annað sætið!

2016 var svo sannarlega virkilega gott ár hjá okkur hér á Grillinu og við göngum áberandi flott inn í 2017.